Fyrsta greiningin á markaði með kröfur í Glitni frá upphafi
Ráðgjafarfyrirtækið Moelis & Company hefur að tilstuðlan slitastjórnar Glitnis gert ítarlega greiningu á viðskiptum með kröfur á Glitni hf. frá bankahruni 2008 til september 2013.
- Samkvæmt könnun Moelis hefur markaður með kröfur verið mjög virkur. Engu að síður eiga upprunalegir kröfuhafar í Glitni, sem ekki hafa selt sínar kröfur, samtals 29% krafna að verðmæti á kröfuskrá um þessar mundir. (Þessir kröfuhafar eru 93% af fjölda á kröfuskránni). Þar er um að ræða einstaklinga sem fjárfestu í skuldabréfum Glitnis fyrir fall bankans, íslenskar ríkisstofnanir, banka, íslenska lífeyrissjóði, fyrirtæki og aðra fagfjárfesta. Þessir kröfuhafar munu sennilega tapa bróðurpartinum af nafnvirði sinna krafna.
- Könnunin leiðir í ljós að 71% krafna að virði til eru um þessar mundir í eigu kröfuhafa sem hafa eignast þær eftir fall bankans (Um 7 % af fjölda skráðra kröfuhafa).
Moelis hefur gert athugun á viðskiptum með þessar kröfur annars vegar á tímabilinu frá því að bankinn féll 7. október 2008 fram að því að kröfulýsingarfrestur rann út og kröfuskrá var birt 26. nóvember 2009, og hins vegar á tímabilinu þaðan í frá og til þessa dags, þar sem fyrir hendi eru upplýsingar um framsöl og magn viðskipta.
Í úttekt Moelis kemur fram að margir þeirra kröfuhafa sem keypt hafa kröfur á Glitni eftir fall bankans hafa selt þær aftur. Lætur nærri að kröfuvelta frá því að kröfuskrá var innleidd sé að jafnaði 2,3 en einstakar kröfur hafa verið keyptar og seldar 12 sinnum eða oftar.
- Aðeins 7% krafna að verðmæti til, (um 1% af heildarfjölda kröfuhafa á kröfuskrá í september 2013), má rekja til tímabilsins frá falli bankans fram að því að kröfulýsingarfresti lauk, það er að segja milli október 2008 til nóvember 2009. Flestir þeirra kröfuhafa sem eignuðust kröfur á fyrsta árinu hafa síðan selt þær aftur til annarra fjárfesta. Sumar þeirra krafna kunna að hafa komist í eigu kröfuhafa á verði sem nemur 6 % af nafnverði eða lægra. Vísbendingar um slíkt verð ná þó aðeins til fyrstu mánaðanna. Áætlað er að meðaltalsverð krafna á tímabilinu frá október 2008 til nóvember 2009 hafi verið 14% af nafnverði hjá þeim sem enn eru í hópi kröfuhafa.
Samkvæmt kröfuskrá eru 64% krafna að virði til í eigu kröfuhafa, aðallega erlendra fjárfestingarsjóða, sem hafa eignast þær tiltölulega nýlega, á vegnu meðaltalsverði sem nemur 28 % af nafnvirði. (Um 6% af kröfuhöfum eru í þessum hópi).
Moelis & Company er sjálfstætt ráðgjafafyrirtæki með starfsemi víða um heim sem sinnir fjölþættri ráðgjöf um fjármál. Moelis hefur veitt slitastjórn Glitnis ráðgjöf síðan í ágúst 2011. Í skýrslu sinni um kröfumarkað í Glitni gerir Moelis grein fyrir rannsóknum sínum, fyrirvörum og aðferðafræði við athugun sína á viðskiptum og verðþróun á þessum markaði og hvernig fyrirtækið kemst að ályktunum sínum. Meðal annars er birt graf um verðþróun og viðskiptamagn svo og útskýringartöflur.
Fyrirspurnum vegna greiningar Moelis skal beint til Kristjáns Óskarssonar, framkvæmdastjóra Glitnis; kristjan.oskarsson@glitnirbank.com
Analysis of trading activity in Glitnir claims – Moelis & Company